Afmælisbragur Guðjóns á Brimnesi til afa
Guðjón Helgason frá Brimnesi
Kveðja til Guðmundar Vilhjálmssonar hreppsnefndaroddvita á Syðra-Lóni á 60 ára afmæli hans 1944
Guðjón Helgason var f. 17. 12. 1876 í Ásseli, d. 15. 10. 1955. Kona hans var Guðrún Helga Guðbrandsdóttir, f. 18. 01. 1893 í Skoruvík, d. 11. 07. 1990.
Guðjón bjó á Brimnesi 1904-1943.
Úr dagbók Kristjáns á Syðri-Brekkum á afmælisdegi Guðmundar Vilhjálmssonar, 29. mars 1944:
Fyrst var veðurlýsing – „og svo farið í heimsókn til Guðmundar á Syðra-Lóni. borðað og drukkið fram á nótt, mest þó kaffi.“
Guðmundur Vilhjálmsson sextugur
Rekk ég kveð með ræðu í ljóði
Reifan höld og færi gjöldin
Fjöldinn með þó furður hljóði
falla tjöld er líða kvöldin.
Margur er ekki maður slíkur
í mínum hug, en ýmsir duga
horskra á bekki honum líkur
hárs í mekki er yfir rýkur.
Erfða prinsinn, ættarlaukur
til ævikvelds er styður frelsi
valinskyns sem víga haukur
vígi ynsta er ræður gaukur.
Sólar mögur sinnar tíðar
sagnabestur nornagestur
ýmishugar einn við smíðar
ógna ei flugumanna hríðar.
Tekur met í valdra vígi
völuspá þér eingin hái
víxli fet ei vísir stígi
við það get ég undan sígi.
En bölið sama og Baldri góða
bír þér Loki við þó doki
að hnekkja frama og helráð bjóða
í hetjum taman mistil rjóða.
***
Sækjum heim á sextugs morgni
sæmda og orkumann
aldinn höld sem örn hinn forni
æðsta í sveitarrann.
Viljum allir vina í tóni
vart ég ræði um of
hjónum mætum heima á Lóni
helga verðugt lof.
Greini ég lítt er gengið hárum
göfgi er enn á brá
lífs í rómum síst með sárum
siklings augun blá.
Höfgi ei sígið höld á snjallan
hefur nokkurt sinn
víga í snerru ei vent á hallann
virkis höfðinginn.
Ljúft má þeim sem lengi starfa
lífs um farinn veg
vökumanni dáða djarfa
dags að mæla stig.
***
Guðmund verðugt geld ég hól
giftu berðu flestum hærri
frægð að erfðum formanns stól
fyllir mergði að baki er kól
ljómi um herðar lukkusól
leikur sverð í mund frábærri.
Konan mæra kostamanns
krínd er æru í höfðings ranni
öllum kær um ekrur lands
auk þess bæri róðukrans
liljan grær þar lauguð glans
ljúfra bær hinn eden sanni.
Fyrst er haninn frelsis gól
færðu úr hlekkjum ýturmenni
fjöldan þjáða er fjöllin kól
feðra á láði yst við pól
uppreisn háði og unnu skjól
með orku og dáð þó falls nú kenni.
En frelsi og menning frónskri þjóð
mun færast senn og bent til sætis
vörgum brenni í vígamóð
er vart í rennur frjálsra blóð
gneipir* (*greipir?) tvenn sem ganga á hljóð
og gönu renna skeið til ætis.
Við sýn mín kætast sjónargler
er sé eg blætin Óðins hverfa
frelsið mæta fengið er
friðar sæti öðlast hver
undan lætur öfga her
óskin rætist frjálsir erfa.
***
Sæmum vorn sýkling gjöfum
sú er æ venja og forn
engan vér átt né höfum
ipparri og Jónas vorn
til allra þeim eg kalla kröfum
kátir á leikum horn
fána og hún að höfum
hrekjum svo refsinorn.
Veg skreytum rauðum rósum
sem riddarinn kosta fer
og vígslóðir vita ljósum
verjumst svo öfga her
til útvarða allir kjósum
einherja í víga styr
og mungát úr Mímis ósum
margþráðrar njótum vér.
Fullan um fimmtung aldar
forstjóri kaupfélags
oddviti og aðrar taldar
annir er greini eg strax
röksemdar ræður valdar
og ráðsnilli þjóð til hags
göfgi hins góða Baldar
gefin á morgni dags.
Fús svo með frægum rekkkum
foringjans bergi eg skál
í athöfnum öllum þekkum
aldrei sem þýðist tál
langt fram hjá bana brekkum
bið eg hans víki sál
fagnandi eg storð svo stekk um
stormanna yfir mál.
Comments are closed.