Bréf Guðmundar á Lóni

Hér eru bréf Guðmundar afa til Torfa í Ólafsdal, skólastjóra síns, frá árunum 1894 – 1911, eins stafrétt skráð og ég hef getað lesið úr skrift hans.

Margt er áhugavert í þessum bréfum fyrir okkur afkomendur Guðmundar Vilhjálmssonar. Þó er ekki síst merkilegt að hann skuli yfirleitt hafa skrifast á við þennan ágæta skólamann og höfðingja, Torfa, sem var 66 ára þegar strákurinn lýkur námi tvítugur að aldri og bréfaskiptin byrja.

Í fyrsta bréfinu lýsir hann ferðalaginu heim úr skólanum í Ólafsdal þar sem hann lauk námi vorið 1904. Það gefur okkur dálitla innsýn í líf fólks á þessum tíma að hann var hálfan mánuð á leiðinni frá Ólafsdal austur á Langanes. Annað slíkt tækifæri gefst okkur í bréfinu frá 16. 11. 1908 þar sem má sjá bréfritarann fyrir sér, kannski sitjandi í húsinu inn af baðstofunni á Ytri-Brekkum. Kvöldin eru svo löng að þá gefst tími til bréfaskrifta. Í lok bréfs er hann þó orðinn syfjaður og hættir því að skrifa. Að sumrinu fór tíminn auðvitað í annað en skriftir.

Í þessum bréfum rekur afi Guðmundur nokkuð hvaða aðferðum hann beitti til að koma nægilega vel undir sig fótunum til að geta beðið sér konu. Þar kom ýmislegt að gagni sem hann lærði í Ólafsdal, þúfnasléttun, jarðabætur og fleira. Má geta nærri að hann hefur þurft að leggja hart að sér. Mamma (Herdís) var mest hissa á að hann skyldi hafa stundað sjó, en hann var mjög sjó- og ferðaveikur eftir því sem hún mundi, gat varla ferðast í strætisvagni nema stutta leið.

Eitt er merkilegt að skoða; afi pantar verkfæri af ýmsu tagi frá Ólafsdal og lofar borgun síðar. Svo sendir hann jafnvel ávísun í pósti þegar viðkomandi hlutur er kominn til kaupandans. Myndi þýða að bjóða svona viðskiptahætti í dag?

Eftir því sem líður á og pilturinn þroskast fer hann að hugsa meira um landsmálin og pólitíkina. Þar þykist ég kannast við skoðanir sem skiluðu sér til barna hans,– heiðarleika, að standa í skilum, eiga sitt skuldlaust, óbeit á valdafíkn og gróðabralli, samvinnuhugsjón og virðing fyrir ómenguðu lýðræði.

Það sem mér þótti þó vænst um að sjá í þessum bréfum er sú væntumþykja og þær tilfinningar sem hann lýsir í garð eiginkonu og dóttur. Það eru merkilegustu fréttirnar í þeim bréfum þar sem þær ber á góma og segja mikið um hug hans. Það hefur stundum verið haft á orði í afkomendahópnum að karl hafi verið harður og óvæginn, lítið gefið sig að blíðuhótum. Það sannast hér að mínum dómi að inni við beinið átti afi þetta allt saman til, hlýjar tilfinningar og blíðu. Mér finnst það veita honum nokkra uppreisn hvað þetta varðar.

Njótið bréfabunkans!
Gréta Pálsdóttir

Ytri-Brekkum 11. 6. 1904

Góði vinur!

Eg þakka góða viðkynningu á liðna tímanum.

Bærilega gekk mér ferðin heim, hægt nokkuð en slisalaust. Eg var nærri hálfan mánuð á leiðinni, en slapp þó rétt heim fyrir hvítasunnuna, það var kl. 3 á hvítasunnunótt sem eg náði heim til mín. Þessi langa útivist mín stafaði af því að við félagar þurftum að bíða 3 daga á Skagaströnd eftir „Vestu“, að öðru leiti gekk ferðin ekki seinna en við mátti búast.

Þegar eg kom heim fékk eg slæmt kvef og var lasinn af því í rúma viku svo eg gat ei unnið fullkomna vinnu, en nú er eg fyrir löngu orðinn vel frískur.

Hálfa aðra viku var eg fyrst heima við svona ýmis störf – lítið við jarðabætur – svo hef eg nú verið hálfa aðra viku við jarðabætur hjá Snæbirni verslunarstjóra á Þórshöfn og er búinn að plægja þar og herfa um hálfa dagsláttu svo verð eg hjá fleirum eitthvað við jarðabætur í vor.

Verkfærin frá þér og kofortið mitt kom til Þórshafnar 30. fm. með Hólum, allt með bestu skilum. Lítið er um jarðyrkjuverkfærin hér um pláss eins og svo víða, ekki einusinni ristuspaðar nema á fáum bæjum, sem mikið stafar af því að þeir fást hvergi hér í nánd.

Af því að nokkrir menn hér hafa kvartað yfir því við mig að sig vantaði ristuspaða, þá langar mig til að biðja þig ef þú átt hægt með að hjálpa mér um eina 3 spaða skaftlausa og svo senda mér þá með fyrstu skipsferð. Eg skal senda borgun fyrir þá um leið og ég sendi þér það sem eptir stendur hjá mér, af verkfæra verðinu, sem verður að bíða betri tíma, þar eð lítið hefur safnast í budduna enn.

Vel hefur viðrað hér síðan eg kom heim, alltaf blíðviðri og mjög miklir hitar þessa síðustu viku, gróðurinn að þjóta upp og útlit því hið besta, nú, enda kemur mönnum það víst betur, því nógu lengi var vonda tíðin búin að dvelja hér. Þó hefur veturinn víst ekki verið verri hér en í meðallagi en slæmar ástæður eptir hið afar illa sumar í fyrra og svo mjög slæmt í vor fram að hvítasunnu. Ekki voru þó vandræðin með hey hér í sveit og ekki mjög heldur í nærsveitunum.

Eg var svo heppinn að koma heim með góðu tíðina með mér, en þó held eg að sveitungar mínir vilji ekki beinlínis þakka mér komu hennar.

Eg er að huxa um að láta hér staðar numið með skriftina og biðja þig að reyna að stauta í málið, einnig að fyrirgefa óvandvirkni mína.

Líði þér ætíð eins vel og best fær óskað, þinn einl.
Guðm. Vilhjálmsson.

Eg bið að heilsa húsmóðurinni og fólkinu yfir höfuð. Sami G.V.

Ytri-Brekkum 24. 9. 1904

Góði vinur!

Eg þakka kærlega fyrir bréfið þitt frá 15. ágúst s.l.

Nú get eg loks sent þér krónurnar sem eptir stóðu af verkfæraverðinu hjá mér og bið eg þig að fyrirgefa hvað þetta hefir dregist lengi fyrir mér.

Héðan er ekki að frétta nema allt hið besta. Indælasta tíð hefir verið hér í allt sumar síðan um hvítasunnu. Að vísu þótti heldur þurrkalítið hér í ágúst og fyrstu dagana af þessum mánuði, en aptur brakandi þurrkur síðan 10nda þessa mánaðar. Grasspretta hefir verið hér ágæt og heyskapur almennt mikið góður. Garðyrkja er hér varla teljandi en hefir hepnast vel í sumar. Nú er búið að ganga fyrstu göngur hér og verið að ganga aðrar og þykir féð vera með vænsta móti. Kjötprís er hér nú góður, besta kjöt 0,23 aura pundið (í þeim skrokkum er vega 48k) 0,21 eyrir aptur pundið í þeim skrokkum er vega 40k og svo 19–17 aura pund í lakara kjöti. Aptur er mör í mjög lágu verði, ekki nema 0,18 aura pundið og gærur líka í lágu verði. Bestu gærur 2,16 kr. Markaður fyrir fé á fæti verður víst enginn hér í sveitinni í haust.

Eg hefi allann heyskapar tímann í sumar verið við heyvinnu hjá pabba. Hann hefir haft 7-8 menn við heyvinnu og fengið af heyi 200 hesta ef töðu og líka 400 hesta af útheyi. En margir hér hafa heyað töluvert meira eptir liðsfjölda, því útengja heyskapur er hér heldur lélegur og langsóttur. Heyskap hættu margir hér um síðustu helgi, en sumir heyja enn.

Þessa vikuna hef eg verið að rista ofan af og býst við að fara að brúka plóginn.

Gamli Ljótur situr með sóma á Sauðanesi. Hann hefir verið mjög heilsutæpur núna þrjú síðustu árin svo menn hafa haldið að Elli muni sigra hann þá og þegar, en nú er karl farinn að rétta við svo allar líkur eru til að Elli bíði ósigur fyrst um sinn. Karl hefir verið hreppsnefndar oddviti hér þangað til í vor að hann sagði af sér þeim starfa og sæmdu sveita menn hann í sumar heiðurs gjöf fyrir góða hreppsstjórn.

Kona séra Arnljóts fór til Hafnar til lækninga í sumar, og er eigi komin.

Töluvert skrafdrjúft hefur mönnum hér í nágrenninu orðið um tvær barnsfæðingar sem komu fyrir hér í sveitinni seint í vetur, og það þó að barnsfæðingar séu hér engin nýung frekar en annarsstaðar. Börnin ólu tvær systur var önnur ráðskona hjá Snæbirni Arnljótssyni verslunarstjóra á Þórshöfn en hin þjónusta Þorsteins Arnljótssonar á Sauðanesi. Við Þórshafnar barninu hefir Snæbjörn víst gengist orðalaust og mörgum hefir dottið í hug að Þorsteinn ætti hitt barnið en við því gekkst vinnumaður á Sauðanesi. Segja læknarnir Þorstein ófæran til getnaðar vegna líkamlegs máttleysis en almúginn segir barnið líkt honum. Hverjir nú hafa réttara fyrir sér ætla eg ekkert að dæma um.

Eg get ekki sagt um það núna hvort er fæ spaðana hjá þér að vori en skrifa þér um það seinna.

Berðu heimilisfólkinu öllu kæra kveðju mína.

Líði þér ætíð sem best. Þess óskar þinn einl. vin
Guðm. Vilhjálmsson

Ytri-Brekkum 15. jan 1905

Góði vinur!

Eg óska þér gott og gleðilegt þetta nýbyrjaða ár! Eg þakka fyrir bréfið þitt síðasta.

Af því sem eg hefi brúkað plóginn minn, hefi eg komist að þeirri niðurstöðu að skerinn á honum sé heldur veikur, því jörð er hér grýtt nokkuð. Eittsinn er eg brúkaði plóginn í haust rakst hann nokkuð í stein svo skerinn bognaði töluvert en eg fékk þó gjört við það, svo eg held reyndar að hann sé nú jafngóður. Eg held samt að það væri vissara fyrir mig að fá smíðaðann skera á hann til að hafa til vara ef þessi kynni að bila. En af því að lítið er um járnsmiði hér svo ekki er hægt að fá skerann smíðaðann hér í nágrenninu er eg að huxa um að biðja þig að smíða hann fyrir mig ef þér sýnist nokkur þörf á því.

Ekkert markvert er að frétta héðan nema það sem þú hefir heyrt, dauða séra Arnl. og konu hans.

Tíð hefir verið í harðara lagi hér í vetur. Setti niður feikna mikinn snjó hér fyrstu dagana af nóvb. sem þó tók upp aftur að mikluleiti um miðjann mánuðinn. Á mörgum bæjum kom þá fé allt og hestar í hús og stóð inni nokkra daga. Í byrjun desb. setti aftur niður mikinn snjó svo lítið hefir verið um jörð síðan en þó beitt fullorðnu fé og hestum af og til.

Hér á heimili er þó fullorðið fé og hestar allir búið að standa á húsi svona alls yfir í vetur 3-4 vikur, og víða álíka lengi.

Líði þér ætíð sem best!

Þess óskar þinn einl.
Guðm. Vilhjálmsson

Eg bið að heilsa fólki þínu sami G.V.

Ytri-Brekkum 11. marz 1905

Góði vin!

Ég hefi verið beðinn að útvega hjá þér 1 plóg og hemla.

Ef þú getur gjört svo vel að hjálpa mér um þetta, vil eg biðja þig að senda það með maíferð strandbátanna – annaðhvort sunnan um land eða norðanfyrir eftir því sem þér er hægast – til Raufarhafnar og merkja það Jóni Guðmundssyni.

Eg sé um að þú fáir borgunina áður en langt líður.

Með bestu óskum

þinn
Guðm. Vilhjálmsson

Sama st. 15. mars 1905

Eg þakka fyrir bréf þitt frá 14. f.m.

Eg tek með þökkum tilboð þitt að fá hjá þér efnið í „skerann“ og má það sendast til Raufarhafnar með plógnum ef þú sendir hann. Eg þarfnast nú eigi skeranna sem eg bað þig um í fyrra.

Illa gekk oss í fyrra að herfa mýrarstykkin sem eg plægði upp með „tindaherfinu“ – var þó rist ofan af –. Veist þú um nokkurt herfi sem rífi vel sundur þannig jarðveg eða hvert álítur þú best til þess?

Mýri þessi var nýlega þurrkuð með opnum skurðum og lokræsum – þó tæplega nægilega þurrkuð – og alls ófúin, dágóð reiðingsvelta sums staðar í henni.

Lítið um fréttir hér. Veturinn hefur verið mjög harður hér á Nesinu og austurundan en léttari hér vesturundan. Má heita svo að öllum skepnum hafi verið gefið inni hér í sveit síðan um „nýár“ og mikið búið að gefa áður.

Eg vona samt að menn standi sig vel með hey hér verði vorið ekki því óskaplegra. Lítur ekki enn útfyrir að ís muni koma.

Nú er frétt um það hverjir prestar verði á kjörskrá að Sauðan. Eru þeir: Árni prófh. og alþm. Jónsson á Skútustöðum, séra Jón Halldórsson á Skeggjastöðum hér í næstu sveit og séra Jón á Stafafelli.

Talið er líklegt að Árni verði kosinn.

Með vinsemd og bestu óskum.

Þinn einl.
Guðm. Vilhjálmsson.

Kláðaskoðun um garð gengin hér í nærsveitunum og hvergi orðið vart við kláða.

Ytri-Brekkum 22. júlí 1905

Góði vin!

Eg þakka þér fyrir sendinguna – plóginn og það sem honum fylgdi –. Eg sendi þér nú hérmeð ávísun til Landsbanka Íslands uppá kr. 50,ur – fimmtíu krónur – sem sé verðið fyrir plóginn og hemlana og bið þig að fyrirgefa dráttinn.

Það er ekki orðað í bréfi þínu hvað skerinn minn kosti, þú lætur mig vita það seinna.

Fréttir engar markverðar. Tíðin hefir verið hin indælasta hér í vor og sumar, en þó litlir þurrkar síðan heyskapurinn byrjaði og því lítið enn komið inn af heyi hér, en spretta er orðin góð.

Gaman hefði eg af að frétta hvernig þér reyndist hnífaherfið og eins hvað það ætti að kosta.

Með vinsemd og bestu óskum
Guðmundur Vilhjálmsson

Ytri-Brekkum 26. 12. 1907

Kæri vinur!

Alúðarþakkir fyrir gamla og góða kynningu eiga þessar línur að færa þér.

Það er nú orðið langt síðan ég frétti síðast frá Ólafsdal. Hvernig gengur það núna hjá ykkur?

Mér og mínum líður vel. Eg hefi alltaf verið heima hjá foreldrum mínum nema hvað eg er af og til í kaupavinnu einkum við þúfnasléttun vor og haust.

Systkini mín eru nú að vaxa upp það yngsta er á 14anda ári. Tveir drengirnir eru á skóla í vetur, annar á Hólum, hinn á lýðskóla á Húsavík, hin eru heima.

Við stundum landbúnað mest, förum þó við og við á sjó til veiða, en það er miklum erviðleikum bundið frá þessu heimili því fiskur er sjaldan hér innfjarðar og þarf að sækja hann langt út með Nesi.

Árferði hefur verið hart til landsins 2 undanfarin ár, sumurin stutt, köld og votviðrasöm, en vetrarnir nokkuð harðir, vortíðin sérstaklega vond (maí – júní) þessi tvö vor síðustu. Það hallar því heldur á landbúnaðinn sem bæði stafar af þessu illa árferði og samkepni frá sjónum.

Í haust skáru menn mjög margt af lömbum vegna fóðurskorts.

Aftur var fiskiafli góður í sumar og verð er afar hátt á fiskinum svo útgerðarmenn geta borgað hærra kaup en landbændur en hér er mannfátt svo sjófólk hefur verið fengið af Suðurlandi en það þykir bæði kaupdýrt og vinnulítið, svo menn rífast eðlilega mjög um það fólk sem hér er fyrir. Efnahagur manna er hér víða allgóður einkum þó þeirra sem bæði geta stundað sjávar- og landvinnu.

Mótorbáta eru menn farnir að kaupa og nota og þykja þeir mjög þægilegir, þegar vélin getur verið í lagi sem er nú oftari farið að verða síðan menn lærðu vel að fara með hana. Hefur veiðst mjög vel á báta þessa víða hér á Norður- og Austurlandi í sumar. Það er hægt að sækja svo miklu lengra til á þeim en róðrarbátum og svo er hægt að byrgja þá svo sjór ekki fari ofan í þá þó yfir þá gangi og svo má ekki gleyma því að þar fríast menn við róðurinn. Síldarveiðin gefst nú ill vegna þess að síld hefir lækkað svo afarmikið í verði á markaðinum ytra og nokkuð af henni selst alls ekki.

Björn Guðmundsson kaupmaður hér á Þórshöfn sem hefir gert út skútu nú nokkur sumur til síldarveiða á alla síldina frá í fyrra 600 tunnur óselda enn í Kaupmannahöfn, og helst er útlit fyrir að eins fari með sumarsíldina núna.

Hér um slóðir há menn enn baráttu við fjárkláðann. Í vor kom fyrir kláði á eitthvað 3 bæjum hér í nærsveitunum svo nú er skipuð strangasta kláðaböðun á öllu svæðinu frá Jökulsá í Axarfirði að Jökulsá á Dal. Eiga menn annað tveggja að einbaða og gefa inni í 8 daga eða tvíbaða án innigjafar og 10 mínútur skal halda hverri kind niðri í baðinu. Þar að auki á að tvíbaða og gefa inni 14 daga á þeim bæjum þar kláðinn hefir fundist. Landsjóður kostar tóbakið, hreppurinn böðunarstjóra og fjáreigendur að öðruleiti sjálfir. Mörgum þykja þetta harðir kostir og er það eðlilegt því í mörgum þessum sveitum þar sem fé gengur mikið úti hefir kláði aldrei gjört neinn skaða, svo menn þekkja ekki hans vondu hlið. En tíðin hefir verið mjög góð það sem af er þessum vetri, lömbum ekki kennt át enn nema þar sem gefið hefur verið inni vegna baðananna, en heyin lítil, svo mönnum þykir ekki gott að gefa inni en margir kjósa þá þann kostinn að tvíbaða.

Mislingaveikin hefir verið á ferðinni til og frá um Norðurland í vetur, ekki er hún þó enn komin á Langanes, en er nú í nærsveitunum. Á Bakka í Kelduhverfi kvað kona hafa brjálast útúr henni, Gunnþóra systir Jóa Þórarinssonar.

Skólabræðurnir eru nú sumir tapaðir mér, en af mörgum þeirra hefi ég fréttir af og til. Þeir Jón Erl., Jói, Tryggvi og Friðm. eru í Kelduhverfi, búa þeir Jói og Friðm. með mæðrum sínum, Jón er hjá föður sínum en Tryggvi er víst lausamaður kóngsins. Hann er nú sagður harðtrúlofaður. Björn Daníelsson er á Austfjörðum en Emil fór til Noregs í haust, ætlar víst að dvelja þar á stórbúi 1-2 ár, Pálmi er í Hörgárdal. Stundar þar bú foreldra sinna, en Sandsbræður hafa oftast verið á Akureyri og þar í nágrenninu. Svo kann eg ekki sögu þessa lengri.

Hvernig gengur þér með grasfræsáðninguna? Heldur heyrast mér þeir Ræktunarfélagsm. að verða daufir með að þannig löguð grasrækt eigi blómlega framtíð fyrir höndum, en annars segja þeir það lítt reynt enn, og þess ber að gæta að hvert sumarið hefir verið öðru verra síðan Ræktunarfélagið fór að starfa, enda hefir það ekki enn sem komið er komið fram með neinar mikilsverðar nýjungar viðvíkjandi ræktun landsins. En það útvegar mönnum hinsvegar á hagkvæman hátt girðingarefni verkfæri o.fl.

Fyrirgefðu þetta flýtisklór og líði þér ætíð eins vel og best fær óskað

þinn einl.
Guðm. Vilhjálmsson

Heilsaðu öllum kunnugum

Yrtri-Brekkum 16.11. 1908

Kæri vinur!

Eg þakka þér kærlega fyrir ritgerðina „Um fráfærur“ og svo bréfið þitt síðara. Hin harða barátta fyrir tilverunni hefir í sumar heimtað krafta mína óskifta, en nú eru dagarnir svo stuttir að góður tími fæst nú á kvöldin til að skrifa kunningjunum.

Um ritgerð þína hefi eg það að segja að mér líkar hún yfirleitt mjög vel, þó er auðsæ skekkja í samanburðinum á dilkum og hagalömbum þar sem dilkar þeirra Jóns í Tröllatungu og Samsonar á Ingunnarstöðum eru lélegri en hagalömbin á sömu bæjum. Það kemur til af því sjálfsagt að þeir bænd. hafa látið yngstu og rírustu lömbin ganga undir en fært hinum vænni frá. Dilkar Ólafs í Króksf.nesi eru og margir tvílembingar og því eðlilega rírari. Yfir höfuð er vænleika munur dilka og hagalambanna – 4-5 ς til jafn. á lifandi vigt – allt of lítill sem líklega stafar meðfram af því að þín lömb eru vænni en þeirra nágranna þinna.

Hér um slóðir hefir og skyr verið í mikið lægra verði en hjá þér er ráðgjört ekki selt nema 5 aura pundið, en það er nú náttúrl. fyrir það að menn hafa ekki kunnað meta gildi þess.

Eg get annars ekki hugsað mér að fráfærum með gamla laginu verði bjargað við nema rétt þar sem hagar eru sérlega góðir fyrir búsmala af því tvennu að vinnukraftinn vantar og hinu ekki síður að með slátrunarhúsunum og hinni bættu verkun á kjötinu kemst það í álit á erlenda markaðinum og verður okkar besta verslunarvara. Er því um að gjöra að framleiða það sem mest og best.

En á samlagsselja hugmyndina líst mér vel. Gætu bændur þá fært frá félegustu gymbrarlömbunum þeim sem þeir ætla til að halda við ærstofninum, en látið hrútana og gymbrar þær sem þeir ætla að slátra ganga undir. Með svona löguðum samtökum ætti að vera hægt að framleiða nokkurnveginn nóg smjör, skyr og osta til neyslu innanlands og er það lífsspursmál því illt er að þurfa kaupa ósköpin öll af margarini og ostum frá útlöndum.

Hugmynd þesrari var hreyft hér lítillega fyrir tveimur árum en fékk þá ekki byr. Frammúrskarandi pláss fyrir „sel“ væri sjálfsagt í Búrfellsheiði hér inn af Þistilfirðinum.

Árferði hefir verið framúrskarandi gott hér þessi tvö síðustu missiri. Eftir ágætan vetur eitt hið besta sumar sem menn muna og stöðugar blíður enn, svo vart hefur gránað í rót og jörð þýð svo hægt er að vinna að torfverkum.

En altaf er eitthvað að.

Prísar hafa verið afar illir þetta ár, útlenda varan í mjög háu verði og landsafurðir hrapað niður. Ull No 1 í 60 aura, besta kjöt 19 aur., mör 20 aura og gærur 25 aura pr. pundið. En fé hefir reynst með lang vænsta móti í haust.

Af sjálfum mér hef er aðeins gott að segja. Vor og haust var eg við sjóróðra og þúfnasléttun hér úti á Nesinu. Hafði eg kaupamann með mér 2 mán. í vor fyrir kr. 70ur um mánuðinn og aftur 2 m. í haust fyrir kr. 50ur um mánuðinn. Eg sléttaði uppá accorð og hafði 25 aura fyrir faðminn.

Heyskapartímann var eg mest við heyskap, röri þó stöku sinnum og var seinast rétt fyrir göngurnar dálítið við sléttun. Ekki er eg búinn gjöra upp sumarreikninginn nákvæmlega, en býst við að eg hafi kringum kr. 500.ur netto upp úr sumrinu.

Laust fyrir veturnætur hætti eg sjómennskunni og fór þá að byggja kofa 12x8x4 álnir hérna út með sjónum, sem eg ætla að safna í ís til að selja færeyskum skútumönnum. Þeir kaupa mikið af ís hér með Nesinu á sumrin og hafa hann til að kæla síld er þeir brúka til beitu. Ísinn er seldur á ½ – 1 eyrir pundið.

Kofinn er nú næstum fullgjör, hef eg haft kaupam. nokkuð til að hjálpa til að byggja hann og svo hefir pabbi gjört mér hjálp. Kofinn stendur rétt við litla á sem sjómenn sækja vatn í er þeir koma inn á fjörðinn og liggur staðurinn því vel við fyrir íssölu.

Ekki held eg að eg verði mjög arðsamur í vetur. Eg reyni samt að koma ís í kofann minn og svo skrifa eg reikninga fyrir Helga smákaupm. hér í Þórshöfn. Það getur og verið að eg segi krökkum til einhvern tíma seinna í vetur.

Sjaldan hefi eg greinilegar fréttir af skólabræðrunum. Það eru helst þeir Jón Erl. og Hjörtur sem skrifa mér af og til.

Jón Erl. og Friðm. eru á Bakka eins og að undanförnu. Jói Þór. er hættur við búskapinn á Bakka og kominn sem einhversk. vinnumaður í Ærlækjarsel.

Tryggvi er nú víst giftur og farinn að búa á Nýjabæ. Pálmi býr í Hörgárdal. Björn hefir verið á Austfjörðum en Emil fór til Noregs í fyrrahaust og er þar víst enn. Páll hefir verið mér tapaður um langan tíma en nú í haust frétti eg að hann væri kominn ofan í Njarðvík og byggi þar svona sæmilega. Sandsbræður hafa verið á Akureyri, hefi eg af og til haft bréfaskifti við Dóra.

Eg er orðinn sifjaður og hætti því að sinni.

Fyrirgefðu ruglið.

Líði þér ætíð vel

þess óskar þinn einl.
Guðm. Vilhjálmsson

Jaðri 8. febr. 1910

Kæri vinur!

Hjartans þakkir fyrir allt gamalt og gott og svo bréfið þitt langa og góða sem eg fékk með síðasta pósti.

Eg varð svo sem hissa þegar eg fékk bréf á fjórum örkum frá þér sjötugum karlinum, en skólabræður mínir nenna ekki að svara mér þó að eg skrifi þeim. Eftir þessu að dæma er það engin skreitni sem gamla fólkið segir, að kynslóðunum fari hraparlega aftur með ári hverju, en þó er nú það aftur að athuga að mennirnir eru misjafnir, þeir gömlu líka og það er langt frá því að þeir séu allir duglegir og skylduræknir þó sumir þeirra séu það.

Hér gjörist fátt tíðinda nú. Veturinn var léttur fram fyrir nýár, þó frostharður nokkuð en nú í fullan mánuð hafa allar skepnur verið á gjöf.

Menn voru hér um slóðir í haust yfirleitt með lang besta móti búnir undir vetur, það eg man til. Veturnir tveir á undan hafa verið mjög léttir og heyfyrningar voru almennt miklar í vor sem leið. Þeim mun vorum við betri en Saurbæingar. Það verða því varla almenn vandræði hér þennan veturinn þó hart verði en haldist harðindi fram á sumar þá gefa menn mikið upp heyin og næsta haust setja menn svo meira og minna á guð og gaddinn. Og þá væri ekki ónýtt að eiga forðabúr. Mér sýnist það nú annars eitt af allra nauðsynlegustu framfaramálefnum þjóðar vorrar. Mér fer eins og þér með það að eg sé ekkert voðalegra en skepnufellir.

Mér líðr vel eins og fyrri. Ekki man eg hvað eg sagði þér af búskapnum mínum (eða hvað eg á að kalla það?) í haust. Eg hefi samt víst sagt þér það að eg byggði mér ofurlítinn íbúðarkofa síðastl. vor yst í landareign pabba og og kalla það býli Jaðar. Í haust byggði eg svo fjárhús rétt við og hef hér kindur mínar í vetur. Þær eru 70 og svo einn hestur. Í fyrrahaust byggði eg hér kofa fyrir ís og seldi Færeyingum ís til beitugeymslu í sumar. Hagbeit fæ eg hjá pabba og ofurlitlar engjareitur, en svo þarf eg að fá engi hjá nágrönnunum.

Bróðir minn og systir voru hjá mér í sumar en í vetur búum við hér bara 2 bræðurnir, systir mín er nú aftur við barnakennslu. Við fáum svo þjónustu hjá mömmu og matreislu að sumu leiti, en að sumu leiti matbúum við fyrir okkur sjálfir. Störf okkar eru svo að hirða skepnurnar og aka heim heyjunum, taka upp ís og saga trjávið.

Eg er nú nýkominn heim úr langri skemtiferð. Eg skrapp inn í Kelduhverfi og dvaldi þar rúma viku. erindislaus var eg ekki, eg var nefnilega að finna unnustuna, og svo fleiri góðkunningja um leið. Unnustan mín heitir Herborg Friðriksdóttir hálfsystir Jóns Erl. Hún er á 21sta ári, myndarleg stúlka, eða svo þykir mér. Við kynntustum fyrst dálítið í haust er eg fór þar inneftir með systur minni.

Eg heimsótti þá Tryggva Níelss. og Jóa Þór. Tryggvi býr á Nýjabæ og þykir búmaður hinn mesti – sem fáa hefði þó víst grunað áður fyrri.- Auðvitað er hann aðeins smábóndi ennþá með eitthvað 50-60 kindur og eina kú en skuldlítill og er það vonum betra eftir fyrra ráðslagi hans. Þetta er annað búskaparárið hans og lítið hafa víst efnin verið til að byrja með.

Jói Þór. er í Ærlækjarseli hjá Stefáni Sigurðssyni, þannig að hann vinnur fyrir skepnum sínum. Hann á fullt hundrað fjár og 2 hesta vantar ekkert nema konuna og kúna, því að líkindum getur hann framvegis fengið part af Ærlækjarseli til að búa á. Mótbýlismaður Stefáns og mágur hans Jón Gauti flytur þaðan burtu í vor svo þá verður rúmt um þá Jóa því jörðin er bæði stór og góð, En það er jafnt á komið með þeim Stef. og Jóa að því leiti að hvorugur giftir sig og eru þó báðir komnir nokkuð yfir þrítugt.

Eg var á aðalfundi Kaupfél N. Þingeyinga í Ærlækjarseli. Formaður félagsins er Jón Gauti. Félagsskapur sá gengur vel, átti félagið nægar vörubyrgðir nú vörur fyrir 14-15 þúsund kr. Svo á það allmiklar húseignir og verslunaráhöld, en skuldar svo landsbankanum 10 þúsund kr. en er skuldlaus í útlandinu. Þetta er mikið hagkvæmari verslun en kaupmannsverslanir hér nærlendis útlend vara öll altaf mun ódýrari og innlend vara hefir oftast verið eins verðhá og hjá kaupm. og hærri stundum t.d. núna. Félagið hefir altaf sent út lifandi sauði og slátraði fé líka í haust. Félagið er aðeins nýlega farið að safna í varasjóð og hefir hann í veltunni, er það auðvitað meiningin að gjöra verslunina skuldlausa og kaupa inn vörur fyrir borgun út í hönd. Vonandi tekst því það með tímanum. Engan höfum við kaupfélagssk. hér austan Axarfjarðarheiðar. Okkur langar reyndar til að koma honum á fót en á því eru ýmsir örðugleikar. Veit ekki samt hvað framtíðin gjörir.

Yfirleitt má segja að mönnum líði hér vel, skuldir við verslanir hafa heldur aukist tvö síðustu ár, en ekki þó stórkostlega. mér finnst fólki líða betur hér en vestra eftir því sem eg leit eftir.

Fyrirgefðu allt ruglið.

Líði þér ætíð vel.
Þinn einl. Guðm. Vilhjálmss.
Heilsaðu öllum kunnugum

Jaðri 11. mars 1911

Kæri vinur!

Eg þakka þér innilega fyrir ágætt bréf í sumar. Mér hefir liðið mjög vel síðan eg skrifaði þér síðast. Eg gifti mig 4. apríl í fyrra vetur á Syðri-Bakka og keyrði með konuna á sleða austur yfir heiðar því nógur var gaddurinn þá.

Ekki er mannmargt í heimili hjá okkur, bara við hjónin og vinnumaður að hálfu, og svo höfum við haft tvo krakka um tíma í vetur til kennslu.

Eg hefi haft heldur gott upp úr þessu ári. Í vor var eg hálfanm. fyrst í vegabót og svo var eg með vinnumann í 2 ½ viku við sjóróðra og hafði upp úr því Ca 150 kr. nettó. Líka byrjaði eg á að búa mér til tún, eg sléttaði 320 fm.

Svo seldi eg Færeyingum ís fyrir 250 krónur og heyjaði rúma hundrað hesta. Úr haustinu varð mér lítið. Samt byggði eg mér hlöðu og aflaði 1 skp. af fiski.

Nú hefi eg á fóðrum 51 á 20 lömb, 8 sauði og 2 hesta. Gaf kindum ekkert fyrr en í síðustu viku þorra, þá fór eg að gefa lömbunum og hafa þau svo staðið inni síðan um góukomu. Ánum er eg búinn að gefa inni í viku og hálfa gjöf í hálfan mánuð. Er það lítið enda þessi vetur einn sá allra besti sem eg man eftir,

Veturinn í fyrra var ákafur snjóa og harðindavetur, var versta tíð hér og mjög jarðlítið fram í miðjan maí. Hér á nesinu voru menn vel heybyrgir, en gjörði ekki betur hér sumstaðar í nærsveitum en að menn kæmust af.

Vorið var alt ósköp kalt og gröri seint. Heyskapur ekki byrjaður fyrr en í fjórtándu viku.

Tún voru laklega sprottin en úthagi varð allgóður á endanum.

Heyskapartíðin var heldur hentug svo það heyjaðist vonum betur þó tíminn væri stuttur.

Haustið var storma og votviðrasamt alt fram að veturnóttum.

Veturinn byrjaði með blíðustu tíð. Hálfan mánuð af vetri setti niður snjó allmikinn og gekk á með frosti og hríðum svo mörgum fór ekki að lítast á blikuna. Hélst harðindaskorpa þessi í 3 vikur. Varð hér jarðlítið svo margir tóku lömb á gjöf. En í sjöttu vikunni gjörði þíður og blíður svo snjó tók allan upp og var alautt eftir það fram í þorra lok.

Hér er almennt vellíðan, efnahagur almennings allgóður. Flestir skuldlausir og hafa nóg fyrir sig.

Fátt er hér samt um framfarafyrirtækin. Hér á dögunum réðust þó 8 bændur í það að stofna ofurlítið kaupfélag, en lítið ætlar það að hafa um sig þetta árið.

Menn eru og talsvert stórhuga með jarðabætur núna. Ætlum við að fá mann frá Ræktunarfélaginu sem tekur að sér að slétta dagsláttuna fyrir kr. 140,00.

Ætlar pabbi að láta hann slétta fjórar dagsláttur hjá sér, og ég eina o.s.frv. Bara að vorið verði nú gott.

Illa líkar okkur alt ráðslag ráðherrans og flokksbræðra hans. Við teljum það skaða að „nefndar frumvarpið“ var eyðilagt og sjáum enga hugsjón æðri bak við allan gauragang meirihluta við síðustu kosningar en valdafíkn og gróðabrallsástríðu. Er það lítill þjóðarsómi að verða, að hinni ósvífnu smölun við allar kosningar hér á landi. Það er fagurt orð frelsið en það fer eins með það eins og annað, að það kemur að litlu gagni þeim sem ekki hafa vit eða sjálfstæði til að nota sér það.

Almenningur á að hafa í höndum sér lykilinn að landstjórninni, með kosningaréttinum, en hvaða gagn er að því þegar hann kann ekki að nota hann.

Svona lít eg nú á þetta mál, en það er auðvitað að sínum augum lítur hver á silfrið.

Eg er nú að hugsa um að láta hér staðar nema að þessu sinni og sendi þér hér með mynd af okkur hjónunum að gamni mínu.

Lifðu vel!

Þinn einl.
Guðm. Vilhjálmss.

Jaðri 6. apríl 1911

Kæri vinur!

Af því að eg missti af skipsferð þeirri um daginn sem eg ætlaði að senda bréfið með, ætla eg nú að bæta við örfáum línum.

Okkur líður vel eins og fyrri.

Tíðin hefur verið hin indælasta síðan um einmánaðarkomu. Er eg búinn að sleppa kindum mínum, enda allt að verða autt.

Eg er búinn að gefa hverri kind 50-60 σ (kg?) af heyi og hestum nokkuð. Á eg nú 160 bagga (100 σ) eða vel það af heyi og hjá pabba gjörðu ásetningsm. hér um daginn 870 bagga, svo það er vonandi að það verði eitthvað eftir af því í vor.

Fátt gjörist hér tíðinda nú. Við fáum seint allar þingfréttir. Þó erum við búnir að frétta um ráðherra skiftin o.fl.

Pósturinn er kominn svo að eg hefi ekki tíma til að skrifa.

Lifðu vel, þinn
Guðm. Vilhjálmss.

Jaðri 17. 12. 1911

Kæri vinur!

Þökk fyrir bréfið þitt síðasta, sem og alt annað gott.

Mér og mínum líður vel eins og fyrri. Það merkilegasta sem eg hefi þér af sjálfum mér að segja er það að eg eignaðist dóttur í sumar. Hún er vel frísk og efnileg og heitir Sigríður eftir móður minni.

Búskapurinn gengur svona þolanlega. Eg hefi nú 98 kindur, kú og 2 hesta og á það sjálfur og er skuldlaus.

Svo á eg þennan kofa sem eg bý í og úthýsin hérna. Þar að auki er eg búinn að kosta dálitlu til túns sem eg er byrjaður á hefi sléttað um 1200 fm.

Þetta hefi eg að mestu leyti grætt á eigin spýtur síðan eg fór frá Ólafsdal. Átti eg þá aðeins hest og 2 kindur. Kúna og 3 kindur fékk eg svo með konunni. Það verður því ekki annað sagt en að mér hafi gengið alt að óskum þessi árin, en mesta hamingju lífs míns tel eg það að eg hefi eignast góða konu.

Eg hefi vinnumann og vinnukonu þetta árið. Var eg fremur óheppinn með þau í sumar, þau voru lengi frá vegna heilsuleisis. Annars er hjúahald hér orðið afar dýrt og ervitt sökum þess að varla er mögulegt að fá almennileg hjú.- Er það það eina sem stendur búskapnum fyrir þrifum nú sem stendur hjá okkur. Annars auka menn almennt efni sín, fjölga skepnum og gjöra stórfelldar jarðabætur, munu hér í hrepnum hafa verið sléttaðar í sumar 12-13 dagsláttur og svo er alstaðar verið að girða túnin með gaddavír.

Þá vantar ekki að fólk heldur sig vel til fata og matar. En nú hefir líka verið gott árferði undanfarið, íslaus ár mörg í rennu, hætt er við að ver gangi þegar íssumurin koma.

Þú minnist einhverntíma á það að þér þyki fjárbrall það sem farið er að tíðkast í Reykjav. og víðar viðsjárvert. Afleiðingar þess eru nú að teygja sig um alt land og það út á ystu annes. Hér um slóðir hafa nokkrir menn þegar fengið skelli af ábyrgðum og ekki séð fyrir endann á því öllu enn, en líklega fara menn að vara sig á því að taka á sig ábyrgðir héreftir.

Eg gat þess víst í bréfi til þín í fyrra, að við ætluðum að fá jarðabótamann frá Akureyri. Við fengum Jón nokkurn Trampe sonar son Trampe greifa sem allir Íslendingar kannast við.

Jón sléttaði hér ca 7 dagsláttur og plægði dálítið að auki. Hann lofaði að slétta dagsl. fyrir kr, 145,00. Endurreiknaði hann sér tilfærslu og gjörði þar að auki ýmiskonar bakreikninga svo dagslátturnar urðu 170-200 kr. Þar að auki var honum færður allur áburður í flagið.

Sáðsléttur hafa ekki verið reyndar hér enn, en við förum nú sjálfsagt að reyna það.

Við stofnuðum ósköp lítinn kaupfélagsvísir í fyrravetur en lítið gengur með það, félagsmenn eru bara 8 en allir vel sjálfstæðir í efnalegu tilliti. Annars gengur illa með allan félagsskap hér, menn ekki félagslyndir.

Vel þóttu mér fara kosningarnar í haust, nema hjá okkur N.Þingeying. Er vonandi að stjórnarfarið gangi nú framv. ekki eins á tréfótum eins og í tíð Björns gamla. Annars er engin mynd á því hvernig Alþing vort er skipað að embættismennirnir skuli vera þar alltaf í yfirgnæfandi meirihluta, enda svíkjast þeir ekki um að skara eldinn að sinni köku. Það er hart að það skuli vera sannleikur, að þrátt fyrir allan menntagorgeirinn í okkur, þá á þjóð vor þó ekki svo vel mannaða bændur og sjálfstæða atvinnurekendur að þeir geti skipað meirihl. á þingi.

Nú er indæl tíð, blíður og þíður stöðugar síðastl. hálfanm. og jörð nú orðin alþíð.

Fé ekkert gefið enn, og varla neitt verið [passað]. (Get ekki lesið annað úr þessu. GP).

Eg hefi nú undanfarið af og til verið við skurðagröftur.

Sumarið síðastliðna var kalt og fjarska graslítið en voraði þó snemma.

Eg held nú sé nóg komið af þessu rugli.

Eg óska þér og þínum gleðilegra jóla og nýárs.

Lifðu vel.

Þinn
Guðm. Vilhjálmsson