Dýrafjarðarpistill

Guðmundur Ingvarsson skráði.

Var pistillinn lesinn upp á þorrablóti árið 2009. Tilefnið var hugleiðingar þorrablótsnefndar um það hvert þeirra systkinanna frá Syðra-Lóni hefði fyrst yfirgefið bernskuheimilið fyrir fullt og allt, þ.e. giftst og flutt á eigið heimili. Niðurstaða: Það mun hafa verið Anna, sem var þriðja í aldursröð systkinanna en hún flutti að heiman er hún var 17 ára gömul. Hér lýsir Guðmundur kynnum sínum af heimili hennar og Eiríks Þorsteinssonar.

Árið 1932 komu hjónin Anna og Eiríkur ásamt fyrsta barni þeirra (Jónínu) til Þingeyrar. Hafði Eiríkur tekist á hendur kaupfélagsstjórastarf í Kaupfélagi Dýrfirðinga, sem hann stjórnaði til ársins 1960. Samgöngur voru í þá daga með öðrum hætti en nú er. Komu þau með skipi og sótti Valdemar Kristinsson á Núpi þau á báti út í mynni Dýrafjarðar. En þannig voru samgöngurnar í þá daga, strandferðaskipin voru ekki að krækja inn í firðina. Fólk þurfti að hafa fyrir því að koma sér í skip og af skipi. Minntist Valdemar oft á það síðar við Jónínu þegar hann bar hana niður kaðalstigann við skipshlið ofan í vélbátinn.

Með komu Eiríks hófst merkur kafli í sögu Kaupfélags Dýrfirðinga og alhliða uppbygging í héraðinu. Ekki átti kaupfélagið hús fyrir kaupfélagsstjórann. Eitt af fyrstu verkum þeirra hjóna var að byggja hús fyrir heimili sitt, sem átti svo eftir að verða nokkurskonar miðstöð Dýrafjarðar. Þangað komu menn víða að og ræddu málin. Skoðanaskipti voru hispurslaus án drunga og lognmollu. Húsbóndanum var tamt að koma með leiftursnöggar athugasemdir og var þá beinskeyttur vel.

Þeir sem þekktu Eirík og muna vita að þar fór enginn meðalmaður. Hann var skapríkur eldhugi, fljóthuga stundum og sást lítt fyrir ef skjótt þurfti að bregða við. Anna þekkti vel skaphöfn bónda síns og kunni að lægja öldur fyndist henni þær rísa full hátt. Segja má að Eiríkur hafi verið fáum mönnum líkur, á það hið sama við um Önnu. Þau hjón eru vissulega minnisstæð. Þau komu ung í Dýrafjörð og áttu þar sín bestu ár.

Börnin fæddust eitt af öðru og komust á legg. Eiríkur var umsvifamaður og naut stuðnings og styrks konu sinnar. Svo margs er að minnast að ekki verður nema fátt eitt talið hér.

Eftir að Eiríkur komst á þing árið 1952 varð ennþá gestkvæmara á heimilinu. Sást ekki á húsmóðurinni að henni þætti það í neinu miður. Gestum mætti ætíð sama hlýja, rausnarskapur og léttleiki í samræðum.

Upp úr 1960 fluttu þau til Reykjavíkur að Glaðheimum 20. Oft var ferðinni heitið þangað af þeim sem þetta ritar og mætti alltaf sömu gleðinni og hlýjunni. Veturinn 1953-54 stundaði ég nám við Samvinnuskólann, sem þá var enn í Reykjavík, undir stjórn Jónasar frá Hriflu. Kynni við slíkan persónuleika og læriföður gleymast ekki. Mér hlotnaðist sú gæfa að búa hjá heiðurshjónunum Þorgeiri og Sísí sem þá bjugggu í Kópavogi, þar sem Þorgeir var kaupfélagsstjóri.

Er námi í Samvinnuskólanum lauk fór ég heim í Syðra-Lón. Vann ég um sumarið á skrifstofu hjá Vegagerðinni, sem þá var að byggja veg á Heiðarfjall. Ég fór heim þarna um vorið með strandferðaskipinu Heklu vestur um land. Með mér voru tveir fylgdarsveinar, frændur mínir ungir sem voru að fara í sveitina. Skipið kom við á Þingeyri og fórum við í land og heimsóttum Önnu. Eiríkur var ekki heima. Skipið stóð stutt við. Veðurblíða var mikil.

Þegar sumarvinnu lauk vantaði mig starf. Amma mín blessuð hringdi í Eirík á Þingeyri og falaðist eftir vinnu fyrir mig og í kaupfélagið fór ég til Eiríks. Á fögrum haustdegi síðla í september árið 1954 kom ég til Þingeyrar með sjóflugvél. Þá var þar sama góða veðrið. Mér varð hugsað til þess hvort veður væru alltaf svona góð þarna og komst síðar að raun um að á Þingeyri er mikil veðursæld. Aleigan var meðferðis, fatnaður og rúmföt í annarri töskunni en harmoníkan í hinni. Virtust viðstaddir þorpsbúar þarna á bryggjunni veita henni nokkra athygli. Brátt kom í ljós að enginn harmonikuleikari var á staðnum til að spila fyrir dansi.

Þessi koma mín til Þingeyrar varð mér örlagarík því að þar hef ég átt heima síðan með minni fjölskyldu. Fyrstu misserin var ég svo heppinn að mega búa á heimili Önnu og Eiríks. Komst ég fljótt að raun um að þar var gott að eiga heima. Þar ríkti gleði og góður heimilisandi. Yngstu börnin voru þá ung að árum og þau eldri flest heima. Skapaðist fljótt vinátta með mér og þessu unga fólki sem aldrei hefur rofnað.

Mér er það minnisstætt er ég gekk inn ganginn í kaupfélagsstjórahúsinu að þar skreið lítill snáði, sá var Jón. Þegar ég gekk til hans og yrti á hann tók hann að orga óskaplega, varð svona hræddur. Hræðslan hvarf þó fljótt af drengnum og fyrr en varði urðum við perluvinir. Þegar í stað var mér tekið sem einum af fjölskyldunni.

Þorpið fannst mér vinalegt, sum hús nýleg og vel útlítandi. Náttúrufegurð er rómuð í Dýrafirði og þarf ekki mörg orð þar um. Hóf ég þegar í stað störf í versluninni og mundi á nútímamáli kallast verslunarstjóri, var það starfsheiti þó óljóst því ég komst fljótt að raun um að það var bara einn sem öllu réði. Kaupfélagsstjórinn var sem sagt allt í öllu.

Eiríkur var á þingi á þessum tíma og var því langdvölum að heiman yfir þingtímann. Reyndust völd verslunarstjórans þá óneitanlega aukast. Á heimilinu sem var glæsilegt ríkti myndarskapur, rausn, léttleiki og glaðværð. Í stofunni var forláta samstæða í skáp, útvarp og plötuspilari. Hljómplötur voru ekki margar en þar var að finna ameríska standarda og jass. Kom mér það á óvart en húsbóndinn virtist halda upp á þessa músík og raulaði gjarnan með. Var ég mjög uppnuminn af þessu tæki og spurði Eirík hvort ég mæti setja plötu á fóninn svona í hófi. Hann hélt það nú og latti mig ekki.

Eiríkur átti forláta drossíu, en svo nefndust fólksbílar þá. Þetta var Chewrolett, 48 módel minnir mig, alveg magnaður bíll. Þá voru bílar engar beiglur. Hæð undir drossíuna var svipuð og undir meðal jeppa nú til dags, enda eins gott. Vegir í Dýrafirði voru mjög af skornum skammti á þessum árum. Þó var að verða fært fyrir fjörðinn þegar ég kom þangað 1954. Það kom sér vel fyrir Eirík að bíllinn var öflugur.

Margar skrautlegar sögur heyrði ég þarna á staðnum af afrekum kaupfélagsstjórans á þessum bíl. Til dæmis að hann hefði ekið vegleysur um Sanda þvers og kruss og farið yfir ána hvar sem hann kom að henni. Oftast heppnuðust ferðir hans vel, þótt stöku sinnum þyrfti hann aðstoð. Undirbúningur fyrir bílpróf var vægast sagt lítill á þessum árum og Eiríkur kominn af táningsaldri þegar hann lærði. Aksturslagið var töluvert skrautlegt í fyrstu. Hann náði þó fljótt tökum á bílnum í þessum torfæruakstri og varð flinkur bílstjóri. Það kom sér vel að eiga sterkan bíl, enda ekki hlíft, því að kaupfélagsstjórinn hafði litla tilfinningu fyrir mekanik, gerði sér lítið far um að kanna hvað undir húddinu var. Var það ólíkt með hjónunum, Anna hefði getað orðið yfirvélstjóri á glæstustu farþegaskipum hefði hún lært til þess.

Allskonar sögur af Eiríki lifa enn á vörum fólks í Dýrafirði þó þeim fari óðum fækkandi sem muna hann persónulega. Ég veit að þeim hjónum fannst mikið til Dýrafjarðar koma og fólksins þar. Hugurinn reikaði oft til fjarðarins fagra eftir að þau fluttu alfarin til Reykjavíkur.

Fyrsta langferðin

Við frásögn Guðmundar af kynnum við Önnu og Eirík má bæta ferðasögu er fjallar um það þegar Anna fór frá Syðra-Lóni með Jónínu Herborgu Eiríksdóttur u.þ.b. 8 mánaða gamla. Frásögnin er höfð eftir Sigríði Guðmundsdóttur er hún var á 98unda aldursári.

Eiríkur Þorsteinsson starfaði hjá pabba við Kaupfélag Langnesinga í tvö ár og bjó þá á Syðra-Lóni. Veturinn 1931-32 starfaði hann við Kaupfélagið að Minni-Borg í Grímsnesi en Anna sat í festum heima á Syðra-Lóni og eignaðist Jónínu þ. 6. nóv 1931.

Um vorið líklega seint í júní eða byrjun júlí fóru þær með skipi til Reykjavíkur en þá var Eiríkur kominn þangað. Svo háttaði til að skipið kom ekki inn til Þórshafnar heldur lagði það að á Skálum eins og stundum gerðist. Ekki var vitað nákvæmlega hvenær von var á skipinu svo að hafa þurfti fyrirvara á að komast út í Skálar. Mér var falið að flytja þær mæðgur, náttúrlega á hestum, ekki var um annað að ræða. Ekki veit ég hversvegna ég var látin fara með þeim. (Það liggur samt ljóst fyrir því að hún Sigga var alvön hestakona og var æfinlega send ef fara þurfti á hestum bæði í smalanir og í sendiferðir t.d. inn í Þistilfjörð eða inn yfir Axarfjarðarheiði eða hvert sem var. Innskot skrásetjara.)

En ég þekkti leiðina því að ég hafði komið með skipi í Skálar eitthvert vorið þegar ég var að koma úr Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Þetta var nokkuð löng leið út í Skálar. Við lögðum af stað um eða upp úr hádegi og riðum sem leið lá út í Heiði. Þar stönsuðum við hjá frændfólkinu Vilhjálmi Davíðssyni ömmubróður okkar og Aðalbjörgu Sigurðardóttur konu hans og drukkum miðdegiskaffi. Síðan sveigðum við austur með Heiðarfjallinu yfir nesið, einhverja fylgd fengum við upp í heiðina.

Komum svo síðdegis í Kumblavík. Þar bjuggu hjónin Sigtryggur Helgason og Guðbjörg Friðriksdóttir. Þar fengum við góðar móttökur. Piltar voru nýkomnir af sjó og Guðbjörg sauð handa okkur glænýjan fisk, yndislega góða máltíð. Síðan fylgdi Sigtryggur okkur gangandi út í Skálar enda hefur sjálfsagt ekki verið riðið greitt með barnið og hestar farnir að þreytast. Sigtryggur yfirgaf okkur ekki fyrr en hann var búinn að koma okkur í hús hjá vinafólki foreldra okkar Haraldi Kruger og Konkordíu Jónsdóttur. Það var búið að undirbúa að við fengjum að vera hjá þeim. Þarna biðum við í þrjá daga eftir skipinu og fór afskaplega vel um okkur hjá þessu ágæta fólki.

Skipið kom svo um miðjan dag og fylgdi ég þeim mæðgum út í skip og bjó um þær þar áður en ég yfirgaf þær. Lagði ég svo strax af stað heim á leið og reið greitt í yndislegu vorveðri og einstakri birtu eins og gerist best á Langanesinu í náttleysumánuði. Ekki man ég annað en ferðin gengi vel.

Voruð þið á góðum hestum spyr skrásetjari?

Nei, nei það var ekkert til nema bykkjur, það voru aldrei til góðir reiðhestar heima fyrr en Svipur kom og Hremsa. Svipur var þægilegur hestur og hafði allan gang. Hremsa var reiðhestur mömmu og hún var skeiðhestur fyrst og fremst. Ekki er vitað nánar um ferð þeirra mæðgna á skipinu, sennilega hefur verið farið austur um land. Um haustið eða 6. september 1932 giftu þau sig Anna og Eiríkur og fluttu það haust til Þingeyrar.

You may also like