Þættir úr ævi hjónanna Herborgar Friðriksdóttur og Guðmundar Vilhjálmssonar

Guðmundur Vilhjálmsson og Herborg Friðriksdóttir

Aðalbjörg Ingvarsdóttir. Ritað í tilefni niðjamóts á Syðra-Lóni 6.-8. júlí 2007.

Langanes er ljótur tangi
Lygin er þar oft á gangi.
Margur ber þar fisk í fangi,
en fáir að honum búa.
Nú vil ég heim til sveitar minnar snúa.

Þannig orti Látra Björg. Okkur sem ólumst þar upp finnst þó hvergi fegurra, það gerir ljósadýrðin á vorin er sólin siglir yfir haffletinum dag og nótt. Og fólkið var vandað, ólíkt því sem Látra Björg lýsir.

En hver voru þau og hvernig þessi heiðurshjón sem við eru að minnast hér? Við skulum byrja á að huga aðeins að uppvexti þeirra og síðar lífi og starfi þótt aðeins verði um smábrot að ræða.

Heimili afa, Guðmundar Vilhjálmssonar

Afi fæddist á Skálum á Langanesi 1. mars 1884. Foreldrar hans voru Sigríður Davíðsdóttir frá Heiði og Vilhjálmur Guðmundsson frá Skálum. Hann var elsta barn foreldra sinna sem lifði, áður hafði fæðst Sigtryggur sem lést á þriðja ári. Alls urðu systkinin tíu en þrjú þeirra létust í bernsku.

Foreldrar afa bjuggu sjö til átta ár á Skálum, fluttu þaðan í Eldjárnsstaði, bjuggu þar í fjögur ár en keyptu þá Ytri-Brekkur og bjuggu þar ævina á enda. Þeim búnaðist afar vel og samkvæmt umsögn vesturfarans Friðriks Guðmundssonar bónda á Syðra-Lóni kringum aldamótin 1900 „var Vilhjálmur talinn ríkasti bóndi í Sauðaneshreppi. Hann var sérstaklega ráðvandur í öllum viðskiptum en framkvæmdasamur, stjórnsamur og duglegur til allra búverka og smiður talsverður“.

Sigríður Davíðsdóttir var greind merkiskona, hún var skólagengin, hafði stundað nám við Kvennaskólann á Laugalandi. Hún var víðsýn og vel lesin og mikill fræðari. Kunni ógrynni af ljóðum sem hún var t.d. óspör á að fara með fyrir sonardóttur sína Sigríði á Syðra-Lóni og kenndi henni ljóðabálka eftir Kristján Jónsson fjallaskáld sem hún hélt mikið upp á, Einar Benediktsson og fleiri.

Hún kom árlega eða oftar í heimsókn að Lóni og dvaldi jafnan nokkra daga. Sinnti þá ýmsum verkum en sérstaklega vann hún við að hreinsa æðardúninn sem þá var alfarið gert á heimilinu. Á meðan á dúntínslunni stóð var hún stöðugt að tala við nöfnu sína og fræða hana. Þuldi kvæði og útskýrði orð og orðatiltæki fyrir henni.

Telur móðir mín að hún hafi lært mjög mikið í íslensku máli af ömmu sinni og því til sönnunar nefnir hún að þegar hún kom í Gagnfræðaskólann á Akureyri hafi hún þekkt og getað skýrt ýmis orð og orðtök sem aðrir nemendur kunnu ekki skil á og lauk Sigurður skólameistari lofsorði á kunnáttu hennar. Þetta þakkaði hún ekki síst fræðaranum Sigríði ömmu sinni.

Auk þess kenndi gamla konan sonardótturinni að sauma út og enn eru til dúkarnir sem barnið saumaði með vandasömum sporum. Gamla konan hefur vitað hvað mátti bjóða Sigríði litlu því handbragðið ber vott um vandvirkni.

Það sem hér er sagt frá gerðist áður en móðir mín náði tíu ára aldri því að Sigríður Davíðsdóttir lést er móðir mín var tæplega tíu ára. Enn í dag fer hún móðir mín hiklaust með ljóðin sem amma hennar kenndi henni nú 96 ára gömul. Meira að segja man hún móðir mín hvað borið var á borð á Ytri-Brekkum eitt sinn er hún fór með foreldrum sínum í heimsókn þangað en það var veislumatur, steiktar rjúpur fylltar með rúsínum. Þá var Þuríður heima og búin að sækja matreiðslunámskeið á Akureyri og stóð fyrir matargerðinni. Maturinn var góður.

Vilhjálm man móðir mín ekki því að hann lést þegar hún var rúmlega ársgömul. Hinsvegar vitum við ýmislegt um heimilið á Ytri -Brekkum vegna frásagna Óla P. Möller skólastjóra á Þórshöfn en hann var fóstursonur þeirra Ytri-Brekkna hjóna.

Óli var sonur Sigþrúðar Þórðardóttur vinnukonu á prestssetrinu á Sauðanesi. Gekkst prestssonurinn Kristján Þorsteinsson við honum en Óli sagði sjálfur að svo væri talið að prestur hefði jafnvel sjálfur verið faðir hans. Prestsfrúin kom barninu í fóstur. Drengnum var ekki í kot vísað, Sigríður Davíðsdóttir sótti barnið tveggja daga gamalt í Sauðanes og heilsaði prestsfrúin henni með því að rétta henni tvo fingur. Þannig var mannamunurinn, þó var Sigríður stöndugust bændakvenna á nesinu og í miklum metum samtíðarmanna.

Óli mat fósturforeldra sína mjög mikils og bar mikla virðingu fyrir þeim. Taldi heimili þeirra mikið menningarheimili. Daglega var lesinn þar húslestur og var Njála lesin annaðhvert ár en annars ýmsar sögur þess á milli svo sem sögur Jóns Toroddsen og ýmislegt fleira því bækur voru keyptar á heimilinu. Sagði Óli að hann hefði notið mjög þeirrar menntunar sem heimilið bauð upp á.

Sigríður var afar nærfærin og til hennar leitaði fjöldi fólks til að láta hana búa um sár og kaun. Hún kunni að lækna skyrbjúg með því að láta fólk borða skarfakál, af því hefur eflaust verið nóg í Skálabjargi og e.t.v. í fjörum á Ytri-Brekkum. Óli lýsti fyrir mér þegar hún var að lækna fólk af geitum en það var smitsjúkdómur sem orsakaðist af sveppum og gætti aðallega í hársverði. Sigríður hreinsaði kaunin, smurði með tjöruáburði og lagði skinnlepp yfir sem hún hafði saumað saman úr mörgum bútum. Að nokkrum tíma liðnum rakti hún bútana svo smám saman frá og þá þurfti að fjarlægja hvert sýkt hár. Þetta taldi Árni læknir sonur hennar síðar að hefði mátt kalla hrossalækningar en allt um það, fólki batnaði við meðferðina.

Menntun var í hávegum höfð á Ytri -Brekknaheimilinu og systkinin sóttu flest einhverja mentun fram yfir barna og unglingafræðslu. Afi var búfræðingur frá Ólafsdal, Sigtryggur búfræðingur frá Hólum, Þuríður var kennaramenntuð, Aðalbjörg lærði ljósmóðurfræði og Árni var læknir. Um menntun tvíburanna Axels og Davíðs hef ég ekki upplýsingar þó er líklegt að annar þeirra a.m.k. hafi sótt lýðskóla á Húsavík (afi getur um það í bréfi til Torfa í Ólafsdal að bróðir sinn sé í lýðskóla á Húsavík, það gæti átt við annan tvíburann). Eflaust hafa þeir báðir fengið menntun.

Ytri- Brekkna hjónin voru greiðvikin og hjálpuðu mörgum fáttækum um mat og nauðþurftir, var sagt að það hafi verið Sigríður fremur en Vilhjálmur sem stóð fyrir því. Hún var hliðholl þeim sem minna máttu sín, gáfuð og merk kona. Hann var fastheldnari, hygginn og ráðsnjall bóndi og efnin voru góð.

Heimili ömmu, Herborgar Friðriksdóttur

Amma fæddist í Svínadal í Kelduhverfi 19. apríl 1889. Foreldrar hennar fluttust síðan að Syðri-Bakka þar sem hún ólst upp. Faðir hennar Friðrik Erlendsson var sagður þjóðhagasmiður og smíðaði mikið bæði fyrir sig og aðra. Sem dæmi um hagleik hans má nefna að hann smíðaði klukku sem gekk eins og vera ber.

Friðrik var gáfumaður og skáldmæltur eins og bræður hans og afi hans Gottskálk og aðrir úr þeirri ætt. Sú gáfa fór snyrtilega framhjá ættlegg ömmu því að ekki eru mörg skáld í okkar röðum.

Friðrik var tvígiftur, fyrri kona hans hét Sabína og áttu þau saman soninn Jón Erling en Friðrik missti konuna frá syninum ungum. Þá kom til hans systir Sabínu, Guðmunda og fóstraði drenginn. Þau gengu síðan í hjónaband Guðmunda og Friðrik. Þær systur voru frá Víðihóli á Hólsfjöllum. Guðmunda hafði mikinn persónuleika, var afskaplega vel gerð kona. Fyrir því hef ég orð Ragnheiðar Jónsdóttur frænku okkar frá Sandfellshaga sem var langömmu samtíða langa tíð.

Langamma kunni mikið af sögum og kvæðum sem hún fór með. Hún hélt m.a. mikið upp á Jónas Hallgrímsson. Passíusálmana kunni hún alla utanbókar og gat vitnað í þá hvar sem var. Þau hjón eignuðust saman sex börn auk Jóns Erlings af fyrra hjónabandi Friðriks. Þessum hjónum var farið líkt og Ytri-Brekknahjónum hvað það varðaði að að þykja mikils um vert að börnin öfluðu sér menntunar.

Jón Erlingur var búfræðingur frá Ólafsdal, Kristín lærði fatasaum á Akureyri og sótti einnig menntun í ostagerð og mjólkurfræðum í Hvítárvallaskóla. (Þau hjónin Kristín og Jón höfðu geitur mestan sinn búskap og gerði Kristín osta úr geitamjólkinni).

Amma fór í Kvennaskólann á Blönduósi, Stefanía lærði ljósmóðurfræði og var ljósmóðir á Langanesi. Þessar systur voru allar bráðmyndarlegar húsmæður. Árni bróðir þeirra lauk námi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Hann var sagður bráðgáfaður og var afar vel látinn. Hann lést á unga aldri. Gunnlaugur lærði smíðar hann bjó á Akureyri en Páll var sá eini sem ekki gekk menntaveginn. Hann var dálítið sérkennilegur samkvæmt frásögn Friðriks Jónssonar frá Sandfellshaga. Svo skyggn var hann að talið var að hann væri aldrei einn þótt aðrir mennskir væru fjarri. Kvaðst hann vera kvæntur álfkonu og eiga með henni tvo syni. Þegar strákar spurðu hvort ekki væri þröngt um þau öll í rúminu sagði hann svo ekki vera, drengirnir svæfu á herðum þeirra hjónanna. (Sannarlega skemmtilegt að finna megi kynlega kvisti í ættinni.)

Þess má geta til gamans að systurnar frá Syðri-Bakka lærðu allar að synda í Litluá sem er volg á með sandbotni, rann hjá Krossdal þar sem nú er Skúlagarður. Amma sagði frá því að hún keppti í sundi og kom fólk umvörpum til að horfa á unga fólkið synda. Afi hafði líka lært að synda ekki er vitað hvar hann lærði sund. Aldrei syntu þau í lóninu svo vitað sé en það var mesta sport okkar krakkanna að synda í lóninu á góðviðrisdögum, þá varð lónið vel volgt.

Amma átti líka skauta þótt ekki iðkaði hún skautahlaup á lóninu en þar var oft afbragðs skautasvell á vetrum og krakkar notuðu sér það mikið. Þetta sýnir að ýmsar íþróttir hafa verið stundaðar á uppvaxtarárum þeirra þótt þau gæfu sér ekki tíma til að njóta þeirra síðar.

Þau Friðrik og Guðmunda dvöldu á Syðra-Lóni á efri árum. Mamma man lítið eftir afa sínum, helst minnist hún hans er hann var að vinna við smíðar. Hann dó þegar mamma var fjögurra ára og eftir það flutti Guðmunda langamma til Kristínar dóttur sinnar í Sandfellshaga og dvaldi þar þau 45 ár sem hún átti ólifuð en hún náði 102ja ára aldri og átti reyndar aðeins tvo mánuði í að ná 103ja ára aldri.

Skólaganga

Um nám þeirra afa og ömmu er það að segja að þau sóttu skóla sem voru mikils metnir á þeim tíma. Amma fór í Kvennaskólann á Blönduósi skólaárið 1906-7. Þar var kennd íslenska, reikningur, danska, náttúrufræði, heilsufræði,saga, fatasaumur, hannyrðir, matreiðsla, þrif og heimilishald. Margar stúlkur sem stunduðu nám við skólann lögðu síðar kennslu fyrir sig eða saumaskap.

Amma saumaði mikið á meðan hún gat bæði fyrir heimilið og fyrir aðra. Hún saumaði t.d. peysuföt og upphluti af mikilli snilld og það vissi ég að hún hafði lært á Blönduósi. Hún talaði ekki mikið um skólagöngu sína svo ég heyrði en átti Kvennafræðarann eftir Elínu Briem forstöðukonu Kvennaskólans og notaði mikið. Í Kvennafræðaranum voru leiðbeiningar um hverskonar matargerð og heimilishald auk uppskrifta af allskonar réttum.

Afi stundaði nám við búfræðiskólann í Ólafsdal árin 1902-1904 og var kennslan samfelld í tvö ár. Í Ólafsdal námu menn búfræði, heyskap og skepnuhirðingu. Lærðu að temja hesta, kynntust ferðalögum á eigin ábyrgð bæði á sjó og landi, lærðu að smíða og byggja úr margskonar byggingarefni og kynntust þeim nýjungum sem við varð komið á sviði framfara. Sagt var að nemendur hafi lært að kenna börnum og víst er að margir búfræðingar lögðu kennslu fyrir sig.

Það sem mér finnst mjög athyglisvert í skólasögu Ólafsdals er að búfræðingar lærðu heimilisverk og heimilisstjórn utan bæjar og innan, sláturstörf, ullarvinnu og vefnað. (Aldrei sá ég afa þó grípa í nokkurt verk innanhúss – það var einfaldlega ekki hans svið því verkaskipting var mjög afgerandi en hann sagði stundum sitt álit á því sem hann taldi betur fara, það var þá sérstaklega varðandi sparnað). Skólinn hefur áreiðanlega lagt áherslu á að rækta leiðtogahæfileika piltanna enda urðu margir þeirra framámenn í sínum byggðalögum.

Þeir voru samtímis í skólanum afi og Jón Erlingur frá Syðri-Bakka og luku þaðan prófi með hæstu einkunnum sem gefnar voru það árið. Kynni þeirra félaga leiddu að öllum líkindum til þess að úr urðu tvenn hjónabönd, þannig að afi kvæntist Herborgu systur Jóns Erlings þann 4. apríl 1910 og sama ár gengu þau Þuríður systir afa og Jón Erlingur í hjónaband. Lán þeirra Þuríðar og Jóns reyndist valt því að tæpum þrem árum síðar eða 13. mars 1913 lést Jón úr lungnabólgu. Þau höfðu eignast tvær dætur en misst aðra þeirra unga en hin dóttirin Sigríður Jónsdóttir náði níræðisaldri og er látin fyrir fáum árum. Síðar giftist Þuríður Þorláki Stefánssyni og eignaðist með honum fimm syni.

Jaðar

Eftir heimkomu frá Ólafsdal fór afi að byggja upp jörð á 1/6 hluta úr landi Ytri-Brekkna og nefndi Jaðar. Bæinn byggði hann árið 1909 í útjaðri jarðarpartsins rétt við Fossána og stóð hann svo framarlega á sjávarkambinum að manni dettur í hug þegar maður sér mynd af bænum að þarna hljóti sjórinn að hafa gengið yfir bæjarhúsin. En engar líkur eru á því að svo hafi verið því að lygna er þarna inni á víkinni og hlé fyrir norðvestanáttinni.

Þessi litla jörð kom aldrei til með að framfleyta stórri fjölskyldu enda hefur sjálfsagt verið ætlun afa að stunda önnur störf með búskap. Eitthvað reyndi hann sjósókn og hafði auk þess ýmis viðskipti við færeyska sjómenn, útbjó sér ískofa og seldi Færeyingum ís. Svo hóf hann störf við kaupfélagið árið 1910 og stjórnaði því í fullri vinnu næstu 20 árin.

En þarna á Jaðri hófu þau búskap heiðurshjónin Guðmundur og Herborg og þar fæddust tvö fyrstu börn þeirra Sigríður og Vilhjálmur. Fátt segir af dvöl þeirra hjóna á Jaðri. Það er aðeins tvennt sem ég hef heyrt talað um frá þessum tíma, annað er það þegar móðir mín á öðru ári hljóp um í fjörunni með hringana af eldavélinni þrædda upp á armana.

Hin sagan er af því þegar álfkonan fékk sníðaskærin hennar ömmu lánuð. En svo bar við að skærin glötuðust og enginn vissi hvað af þeim hafði orðið, var þeirra leitað mikið. Löngu síðar lágu þau morgun einn á pallskörinni þar sem allir gengu um og þau gátu ekki hafa dulist þar nokkrum manni.

Á Jaðri bjuggu þau hjón aðeins í 3 ár og keyptu þá Syðra-Lón en seldu Jaðar Guðjóni Þórðarsyni. Bærinn sem afi byggði brann árið 1943 og byggði Guðjón þá aftur hús á jörðinni en fjær sjávarkambinum.

Syðra-Lón

Syðra-Lón keyptu þau Guðmundur og Herborg árið 1913 ásamt Ingimar Baldvinssyni sem átti 1/6 hluta jarðarinnar. Jörðin Syðra-Lón var talin kostajörð en svo voru þær jarðir kallaðar sem ýmis hlunnindi fylgdu og gátu eiginlega bæði fætt og klætt ábúendur og allt þeirra fólk án þess að mikið meira þyrfti til. Á Syðra-Lóni var mikið ræktanlegt land, beit góð fyrir búsmala og fjörubeit. Þá var þar svarðartekja í mýrum og æðarvarp við lónið sem afi lagði rækt við að auka, lét m.a. hlaða skjólgarða úr grjóti og skýla hreiðurstæðum. Krían verpti á mölinni. Auk þess var silungsveiði í lóninu. Þá jók það auðvitað landkosti að jörðin lá að sjó og nóg var af fiski, fugli, sel og öðru sjávarfangi. Þá var einnig nokkur reki.

Á þessarri kostajörð búnaðist þeim vel og bjuggu mest að sínu því að allt það sem upp er talið hér var nytjað. Það sem sækja þurfti úr kaupstað var helst kornvörur, kol, olía og salt og eitthvað smávegis aukreitis til að gera tilbreytingu í mat og eitthvað til klæðnaðar.

Börnin urðu 12 að tölu á 19 árum. Öll voru þau heilbrigð, rétt sköpuð og vel af guði gerð. Allir voru látnir vinna um leið og vettlingi gátu valdið. Búskaparhættir útheimtu margar vinnandi hendur því allt var unnið með handverkfærum mest alla búskapartíð þeirra afa og ömmu og skipti máli að margir væru í flekknum og við önnur störf.

Vélavæðingin hófst með hestasláttuvélinni sem kom nokkuð snemma á búskaparárum þeirra en aðrar heyvinnuvélar komu ekki fyrr en löngu síðar eða eftir 1940. Þá varð náttúrlega bylting í búskaparháttum. Segja má að á síðustu 13-15 árum búskapar síns hafi þetta fólk upplifað stórfenglegri breytingar í búskaparháttum heldur en orðið höfðu frá landnámsöld til þess tíma. Samt upplifðu þau ekki í sínum búskap að fá rafmagn á heimilið eða að nota þvottavél, ryksugu, hrærivél og öll þau tæki sem okkur þykja sjálfsögð innanhúss í dag. Að vísu var sett upp vindrafstöð eftir seinna stríð sem dugði vel til ljósa meðan hún entist en ekki til annarra nota.

Heimilisfólk hvaða fólk var það?

Heimilið var mjög mannmargt, það þótti fámennt ef aðeins sátu tíu við matarborðið. Fyrir utan 14 manna fjölskyldu var alltaf vinnufólk á heimilinu. Steinn Guðmundsson var ráðsmaður í áratugi og María Lúthersdóttir frá Tunguseli var vinnukona í marga vetur, og vitað er um nöfn fjölda fólks sem var í vinnumennsku á heimilinu í gegnum tíðina. Sumir komu líka árvisst til að vinna einstök verk eins og Lúther í Tunguseli sem kom á hverju hausti til að stinga út úr skíthúsinu, alltaf í hvítri skyrtu og konur sem þvoðu þvotta og tóku stórhreingerningar þegar þörf krafði. Fjölmargir unglingar úr sveitinni dvöldu á heimilinu meðan á skólagöngu þeirra stóð.

Fósturbörn

Svo voru það fósturbörnunin:

Dætur Davíðs bróður afa Guðbjörg og Elín komu á heimiilið 10-11 ára gamlar og dvöldu til fullorðinsára.

Síðan kom móðir mín með okkur fjögur systkinin er faðir okkar missti heilsuna.

Svo kom Þuríður Axelsdóttir frænka okkar hálfs árs gömul og ólst þarna upp. Þegar hún var komin af höndunum þá vildi svo vel til að blessunin hún Gréta kom. Það var nefnilega eins og það þætti lífsnauðsyn að alltaf væru lítil börn á heimilinu. Enda varð einhverri gestkomandi manneskju að orði þegar Sigtryggur var lítill „Hvernig þið getið látið með þetta barn, rétt eins og það sé það fyrsta.“ Hann var nú reyndar ellefta barn foreldra sinna.

Davíð Baldursson var svo hjá afa og ömmu í nokkur sumur. Það voru a.m.k. 8-9 börn sem ólust upp að hluta eða öllu leyti á heimilinu fyrir utan þau 12 sem afi og amma eignuðust sjálf.

Stundum dvaldi veikt og vanmáttugt fólk á heimilinu. Ég man eftir gamalli konu þunglyndri sem dvaldi tvisvar á heimilinu nokkrar vikur eða mánuði í hvort sinn þar til hún hafði jafnað sig. Þetta var nú félagsþjónusta þess tíma. Sumir leituðu liðsinnis eins og t.d. Valdi gamli sem var svona einn í sínum heimi, bar vatn í húsin í Þórshöfn áður en vatnsleiðslan kom, söng oft og talaði við sjálfan sig. Stundum kom hann þrammandi úteftir og var reiður, tautaði þá eitthvað óskiljanlegt. Honum var auðvitað vel tekið, heilsað með virktum og borið kaffi og vel af því. Brátt hýrnaði yfir Valda. Hann kom áreiðanlega af því að einhverjir höfðu strítt honum þótt hann kæmi því ekki frá sér, en fór glaður. Valdi fór stundum með vísu sem hann orti, hún er svona.

„Í himnaríki er hópur stór,
en hinummegin fleira.
Hvora leiðina faðir minn fór
fáið þið seinna að heyra.“

Valdi var orðheppinn og fylgdist með þótt hann virtist vera í sínum heimi. „Ógnarskjöldur bungubreiður“ tautaði hann þegar kona nokkur þrekvaxin með hvíta svuntu gekk út úr húsi sínu í þann mund er Valdi gekk hjá. Það kom á óvart en var jafnframt fyndið að hann skyldi hafa Jónas á hraðbergi og geta tengt við atburði dagsins.

Gestagangur

Gestagangur var óhemju mikill á Syðra-Lóns heimilinu, bæði næturgestir og aðrir sem komu og stöldruðu við eða áttu erindi. Einhver spurði: Hvaða gestir voru þetta?

Jú, allir sveitungar áttu allskonar erindi þar sem afi var oddviti og Vilhjálmur var hreppstjóri og fólk þurfti allskonar þjónustu. Á skömmtunarárunum þurftu allir að sækja skömmtunarseðlana sína á þriggja mánaða fresti til afa. Fólk fékk ekki nauðþurftir nema hafa skömmtunarseðil.

Á sumrin mátti afgreiða aukaskammt af sykri svo að fólk gæti sultað og þá kom fólk til að sækja rabarbarasykursultuaukaskammtinn eins og Dóri á Staðarseli komst að orði. Amma var einhverntíma að biðja um aukaskammt af sykri, það gekk nú á sykurbirgðir heimilisins því öllum gestum voru veittar góðgjörðir, en það var ekki alveg auðsótt mál að hún fengi rabarbarasykursultuaukaskammtinn, það var ekki verið að hlaða undir sig. Amma hefur þó sennilega fengið sitt fram.

Sumir gestir komu lengra að og gistu, bæði háir og lágir ef svo má segja.

Til gamans nefni ég m.a. Jónas frá Hriflu sem kom mjög oft. Það var mikill kunningsskapur milli hans og afa. Hermann Jónasson ráðherra gisti einnig og amma talaði um að hann væri afskaplega skemmtilegur gestur og að það hefði ekkert þurft að hafa fyrir honum. Samt hafði honum náttúrlega verið haldin veisla. Sýslumaður Júlíus Havsteen kom árlega með fylgdarlið. Að ógleymdum þeim Gísla Guðmundssyni alþingismanni og Margréti konu hans sem voru heimilisvinir.

Síðan komu fjölmargir ættingjar og vinir og er of langt upp að telja. Fólk úr sveitunum gisti mjög oft þegar það fór í kaupstað, sérstaklega meðan ekki var búið að leggja veg út á nesið. Það var Skálafólk, t.d. nefni ég Jóhann M. (faðir Magnúsar Blöndal tónlistarmanns) og Harald Kruger en báði þessir menn voru í samstarfi við afa þegar hann var með kaupfélagið og var mikill kunningsskapur við þeirra fólk.

Svo gisti Ytra-Lónsfólkið bæði Jóhannes og Þuríður sem þar bjuggu og síðan Stefanía frænka systir ömmu og Jón maður hennar eftir að þau keyptu Ytra-Lón. Stefanía kom náttúrlega mjög oft. Svo kom fólkið frá Hlíð, Guðjón á Brimnesi og Sigurður í Heiðarhöfn.

Úr Þistilfirði kom frændfólkið frá Svalbarði en austan af strönd t.d. Einar í Saurbæ og fleiri. Lúther í Tunguseli og hans fólk gisti mjög oft og Arngrímur í Hvammi. Þetta eru bara smá dæmi og þar sem ég nefni aðallega karlana er það vegna þess að konurnar voru sjaldan á ferðinni.

Gestagangurinn var alveg dæmalaust mikill og öllum var veittur beini. Alltaf var nóg pláss. Ekki man ég betur. Sem dæmi um það þá skeði það er vinafólkið Þuríður og Jóhannes fluttu til Þórshafnar að þau þurftu að bíða eftir húsnæði í nokkrar vikur um sumarið. Þá lét afi rýma piltaherbergið svo að þau gætu búið þar. Þegar þetta gerðist voru 11 börn fædd á Syðra-Lóni og sennilega öll heima auk vinnufólks. Það var aldrei neitt mál að rýma til svo að hægt væri að hýsa fólk.

Til er brandari af viðskiptum Þuríðar og Árna. Strákarnir kölluðu hana guðsorðagránu, fannst hún vera dálítið með guðsorð á vörunum. Eitt sinn fer Árni til hennar og segir „Þuríður mín getur þú ekki lánað mér skæri?“ „Því kallarðu mig ekki guðsorðagránu núna?“ spyr Þuríður. „Hvaða helvítis kerling er það?“ sagði drengur.

Þuríður var stundum dálítið hispurslaus í klæðaburði hversdagslega. Eitt sinn var hún að lýsa undrun sinni og segir „fell ég nú ekki í stafi“. „Ekki meðan þú ert girt með reypi“ datt þá út úr Árna.

Mikið vann nú fólk bæði börn og fullorðnir. Skepnuhirðing, smalanir, göngur, heyskapur sauðburður, varphirðing, túnhreinsun, svarðartekja og þurrkun, prjóna- og saumaskapur fyrir heimilið og aðra, sláturtíð, veiðiskapur. Vilhjálmur og Erlingur voru miklar veiðiklær, veiddu bæði fisk, fugl, sel og hnísur. Allt var þetta herramannsmatur og um alla matargerðina á heimilinu mætti skrifa heila bók. Mamma sá að mestu um hana það ég man til. Mikið þurfti handa öllu þessu fólki og gestunum. Það var ekki hlaupið út í búð til að kaupa í matinn.

Það sem meira er þá þreifst fólkið vel alla tíð og varð eiginlega aldrei misdægurt. Nema þá þegar farsóttir gengu eins og kíghósti og náttúrlega berklarnir sem hjuggu mikil skörð í þetta litla samfélag á Langanesi og Þistilfirði. Mislingar voru líka mjög hættulegir og létust t.d. 30 manns úr þeim á Langanesi árið 1916. Það var ekki bara gamalt fólk og lasburða heldur líka ungar mæður og fjölskyldufeður sem urðu þessum vágestum að bráð.

Menntun og skemmtun

Öllum börnum sem ólust upp á heimilinu var komið til mennta. Það var metnaðarmál að allir hlytu menntun.

Dönsk blöð voru keypt svo börnin gætu lært að lesa dönsku. Amma keypti danskar bækur og hún las þær. Mikið barst af íslensku lesefni, bæði blöðum og bókum og allir lásu, í því var mikil menntun fólgin. Tíminn var náttúrlega aðal blaðið. Svo var talað vandað og rétt mál á heimilinu og leiðrétt ef rangt var með farið og útskýrt. Hörð norðlenskan töluð og í þá daga mátti vel greina á málfarinu hvaðan af landinu fólk kom. Amma bar sum orð fram öðruvísi en aðrir á heimilinu ég man t.d. eftir að hún sagði habði (hafði).

Útvarpið var vissulega háskóli alþýðunnar. Á það hlustuðu allir. Það átti sinn þátt í að efla málvitund og kunnáttu. Svo flutti útvarpið töluvert af tónlist. Amma og afi höfðu bæði gaman af tónlist, sérstaklega söng. Amma söng ekki sjálf eða þá sjaldan en afi söng mjög oft bæði með útvarpinu og einnig gekk hann oft um gólf og söng lög sem allir kunnu í þá daga. Hann bar stundum undir nafna sinn Guðmund bróður hvað honum fyndist um tónlistina í útvarpinu.

Óvandaður talsmáti var ekki viðhafður eða baknag um náungann og ekki man ég eftir því að gerður væri mannamunur. Nema þá helst sá að framsóknarmenn voru öðrum betri. Það áttu náttúrlega allir að vera framsóknarmenn. Sjálfstæðismenn voru ekki vel séðir, þaðan af síður kommúnistar. Það var einn kommúnisti á Þórshöfn svo vitað væri og sem krakki hélt ég að þetta væri alveg skelfilegur maður. Komst að því síðar að hann var ósköp venjulegur. Ekki þar fyrir að öllum var vel tekið sem gestum á heimilinu hvar sem þeir stóðu í pólitík.

Bækur Laxness voru ekki keyptar fyrr en Gummi bróðir fór að kaupa þær sem unglingur. Afi hefði aldrei lesið þær.

Sjaldan var fólk uppnefnt. Man þó eftir nokkrum sem höfðu einhver uppnefni, Mangi halló, Steinþór trölli, Siggi klökkur. Hversvegna þeir voru uppnefndir veit ég svosem ekki. Steinþór var einn af þeim sem vann erfiðisverkin, kraftalega vaxinn og starfaði sem pakkhúsmaður í Kaupfélaginu þegar ég vann þar. Kallaði fólk elskuna (alskan sagði hann), prýðiskall. Halldór bóndi á Hallgilsstöðum orti um hann.

Ber af öllum öflugur
ei af göllum ríkur.
Stikar í fjöllum stórgengur
Steinþór tröllum líkur.

Siggi klökkur gisti oft heima, hann var óskaplega myrkfælinn og sérstaklega óttaðist hann Skálastúf. Eitt sinn kom hann, þá var Erlingur heima og fór að stríða karlinum með því að rifja upp sögur af Skálastúf. Það endaði með því að karl neitaði að sofa einn í herbergi og fékk svo gríðarlega martröð um nóttina.

Það var lítið talað um trúmál á heimilinu og ekki farið með bænir svo ég vissi þó allir lærðu faðir vorið. Ekki veit ég annað en virðing hafi verið borin fyrir trúnni. Öll voru börnin skírð og flest fermd nema þau sem kusu sjálf að fermast ekki en það voru þeir Vilhjálmur, Þorgeir og Sigtryggur sem það völdu. Til er skrýtla höfð eftir Erlingi að hann kvaðst ætla að fermast því hann ætlaði ekki að vera eins og hundarnir og Villi. Þetta heyrði ég ömmu segja sjálfa, hún hafði gaman af smá glettni.

Amma var berdreymin og gat stundum sagt sjómönnunum sonum sínum Villa og Erlingi fyrirfram hvernig mundi fiskast eða að þeir mundu ekki fiska þótt þeir færu á sjó. Það var ekkert um hjátrú og hindurvitni á þessum bæ, það eina sem ég minnist af því tagi er þegar skærin hurfu (álfkonan fékk skærin lánuð) sem fyrr er sagt.

Eitt mátti þó aldrei minnast á, það var Sólborgarmálið en þeir atburðir gerðust í næstu sveit, Þistilfirði. Ég man eftir að ég las stutta frásögn um Sólborgarmálið í barnaskólanum en þegar ég minntist á það þegar ég kom heim fékk það engar undirtektir og var þaggað niður í mér. Þegar bók Thors Vilhjálmsson Grámosinn glóir kom út, en þar er fjallað um þessa atburði, sagði mamma mér að afi hefði bannað að um þetta mál væri talað á heimilinu vegna þess að hann taldi að því fylgdi draugagangur. Hann hafði orðið var við það. Hann vildi heldur ekki vekja óþarfan ótta. Maður var nú nógu draugahræddur samt en það gerði myrkrið.

Skemmtanir

Hvernig skemmtu þau sér afi og amma? Ekki dönsuðu þau, en fóru kannske á söngskemmtanir eða leiksýningar, einkum ef eitthvað íslenskt var á fjölunum t.d. Skugga Sveinn. Ekki veit ég til að þau sæju kvikmynd. En þau fóru í afmæli, brúðkaup og samsæti, sem voru yfirleitt alltaf haldin ef málsmetandi menn kvöddu héraðið og þá fengu skáldin að njóta sín, fluttu kvæði og mikið var um ræðuhöld.

Helstu skáld á Langanesi og nágrenni voru Jóhannes á Ytra-Lóni, Jón í Garði, Jónas í Hlíð, Guðjón á Brimnesi, Halldór á Hallgilsstöðum og sjálfsagt fleiri.

Afi og amma höfðu afskaplega gaman af að tala við gesti og veittu vel. Oftast gafst þeim tími til að njóta þess því að aðrir sáu þá um að veita beina. Þetta var þeirra skemmtun.

Þau ferðuðust sjaldan en höfðu gaman af ferðalögum, fóru t.d. á alþingishátíðina 1930 og stundum fóru þau að heimsækja börn sín eða skyldfólk. Amma hafði líka gaman af að fara á fundi kvenfélagasambandanna sem haldnir voru víðsvegar um sýsluna eða fundi Sambands Norðlenskra kvenna sem haldnir voru víða um Norðurland. Þá kynntist hún konum víða að. Man ég að eitt sinn fór hún til Hólmavíkur á fund og hafði mjög gaman af því. Amma var um langt skeið formaður kvenfélagsins Hvatar á Þórshöfn og ein af stofnendum þess og ég veit að hún hafði mikla ánægju af því starfi.

Afi starfaði mjög mikið í félags- og framfaramálum alla sína ævi, sem kaupfélagsstjóri í 20 ár og oddviti sveitarfélagsins í 35 ár. Hann átti sæti í ýmsum ráðum og nefndum og fylgdist vel með þróun samfélagsins og studdi til framfara og var framsýnn í þeim efnum. Hann fylgdist líka áreiðanlega vel með fólkinu í samfélaginu og vissi hvenær þurfti að styðja við þá sem minna máttu sín og sýndi sínu samfélagi virkilega föðurlega umhyggju.

Sama var um ömmu að segja því hún var boðin og búin að styðja fólk í erfiðleikum. Ágætt dæmi um þetta: Eitt vorið voru óskapleg harðindi, það snjóaði allt vorið og flestir voru orðnir heylausir a.m.k. karlarnir í Þórshöfn sem margir voru með kú og nokkrar kindur. Afi átti nóg hey og það komu karlar á hverjum degi og sóttu hey, eins mikið og þeir gátu dregið á sleðum. En þar kom að Villi sagði „Þetta er ekki hægt, það verður að stoppa þetta annars verðum við heylausir.“ Þá sagði afi við karlana „Þið megið fara með það sem þið getið borið“. Og þeir tróðu í pokana og bundu þá á bakið og roguðust með þá í snjó og hríð. Þann 16. júní hætti að snjóa og þar sem komið var að lengsta sólargangi ársins bráðnaði snjórinn fljótt og grasið kom grænt undan fönninni. Það stóð á endum að heystabbinn var búinn er harðindunum lauk en ekki hafði þó vantað hey þótt mjótt væri á munum og eitthvað hafði sultarólin verið hert á geldfé og hrútum.

Afi var mjög upptekinn í félagsmálunum og þurfti svosem oft að hverfa frá bústörfum til að sinna þeim. Aldrei bar hann þó neitt úr bítum fyrir þessi störf nema þá smáþóknanir ef einhverjar voru. En þarna var hann á réttri hillu í lífinu. Í búskapnum lét honum ekki allt jafnvel. T.d. átti ekki við hann að eiga við hesta sem voru aðaldrifaflið við búskapinn og smiður var hann ekki, gat varla rekið nagla. Þeir eru líka fáir sem eru jafnvígir á allt og hann hafði líka alltaf nóg lið til að sinna þessum störfum. Aftur á móti var hann afskaplega duglegur og starfsamur og hugsaði af mikilli fyrirhyggju um sitt bú.

Amma var einkar lagin, hún hefði getað orðið ágætur smiður og verkin léku í höndum hennar, svo sem prjón, saumar og búverk. Hún vann öll verk fumlaust og óhikað og var einhvernveginn svo aðgætin og vissi alltaf hvernig hún ætlaði að gera hlutina svo að best færi.

Þegar þau hættu búskap voru bæði orðin vinnulúin og slitin. Þeirra lífsmottó var að sjá vel fyrir sínum, fara vel með, hjálpa öðrum og eyða ekki í vitleysu. Það var ágætt að hann afi þurfti ekki að upplifa græðgisvæðinguna í þjóðfélaginu eins og framsóknarmaður nokkur komst að orði. Það hefði ekki verið honum að skapi.

Það var aldrei vafamál að afi mat ömmu afskaplega mikils. Þó hann vildi ráða flestu þá fór hann ekki á móti vilja ömmu þegar hún beitti sér. Amma var dulari svo að maður vissi ekki eins um hennar tilfinningar en mér var ljóst eftir lát afa árið 1956 að hún saknaði hans óskaplega mikið og talaði af miklum söknuði um hann og átti erfitt með að venjast breytingunni. Lífsþráður þeirra var samofinn. Þau höfðu áorkað miklu í lífinu. Þau ávöxtuðu líka vel það pund sem þau höfðu fengið í veganesti frá foreldrum sínum.

Lokaorð

Einu sinni sem oftar komu þeir móðurbræður mínir Friðrik og Sigtryggur við hjá okkur á Blönduósi á leið austur á Langanes. Þeir gistu hjá okkur, voru að fara með legstein til að leggja á leiði foreldra sinna. Mikið var spjallað. Ég bað þá um að koma við í bakaleið og segja mér ferðasöguna. Það gerðu þeir, gistu aftur og enn var spjallað fram á nótt. Þeir höfðu reyndar lítið sofið í ferðinni, máttu ekki vera að því þeir þurftu nefninlega að skoða hverja þúfu og hvern stein í landareign Syðra-Lóns og rifja ýmislegt upp.

Ég sagði þeim að mig minnti að það hefði alltaf verið gott veður á sumrin á Langanesi þegar ég var krakki, oftast sólskin og hiti. Þeir fullvissuðu mig um að mig misminnti ekki.

Ég lýk þessu spjalli með vísu eftir Hjört Jónasson frá Hlíð.

Lít ég þig að liðnum degi,
Langanesið fagra mitt.
Sólin þína sveipar vegi,
sífellt birta nafnið þitt.

Við ritun þessarra minninga er fyrst og fremst stuðst við eigið minni auk upplýsinga frá móður minni Sigríði Guðmundsdóttur, systkinum hennar Þorgeiri og Herdísi og bræðrum mínum Guðmundi og Ingvari. Ragnheiður Jónsdóttir frá Sandfellshaga og Stefán Þorláksson frá Svalbarði gáfu mér einnig upplýsingar. Ennfremur leitaði ég í Langnesingasögu 1. og 2. bindi skráða af Friðriki G. Olgeirssyni, Æviminningar Friðriks Guðmundssonar fyrrum bónda á Syðra-Lóni, skólaskýrslur Kvennaskólans á Blönduósi og Sögu Torfa Bjarnasonar og Ólafsdalsskóla ritaða af Játvarði Jökli Júlíussyni.

Ritað á vormánuðum árið 2007.
Aðalbjörg Ingvarsdóttir.

You may also like